Ó-ið úr Óskilamunum
Ó-ið úr óskilamunum

NÝTT óskilamunaverkefni fyrir grunnskóla

Kunnugleg sjón í grunnskólum landsins að vori: Heilu haugarnir af flíkum sem hafa orðið eftir í skólanum og ekki komist til eigenda sinna jafnóðum yfir veturinn. Málaflokkur sem fæstum þykir vænt um, margir eru hneykslaðir yfir og fáa langar að sinna.

Óskilamunir eru verkefni til að ráðast í rétt eins og hvað annað. Með auknum fatamerkingum er möguleiki að bera kennsl á föt barnanna okkar, með góðu aðgengi að fötum sem eru í óskilum verður leitin auðveldari og fleiri flíkur munu komast til skila til eigenda sinna.

Staðreyndin er að mörg börn hafa alltaf og munu alltaf gleyma og týna einhverju af fötum sínum og munum. Sumt týnist og finnst aldrei aftur en það þarf svo sannarlega ekki að eiga við um megnið af óskilamunum. Nú er komið af stað verkefni sem hægt er að nýta sér í baráttunni við óskilamunaskrímslið! 

Vilt þú fá frekari upplýsingar? Settu þig í samband við Virpi hér.

Ó-ið úr óskilamunum

Ó-ið úr óskilamunum er verkefni sem Virpi Á réttri hillu hefur sett saman og grunnskólum landsins og foreldrafélögum býðst að vinna með eða án aðstoðar Virpi. Hana er hægt að fá í verkefnið með skólanum og foreldrafélaginu við skólann í allan vetur eða að hluta, en óskilamunaverkefnið spannar allt skólaárið. Bestum árangri í hverjum skóla er hægt að ná með góðu samstarfi milli starfsfólks skólans og foreldrafélagsins.

Markmið verkefnisins „Ó-ið úr óskilamunum“ er að:
– hvetja foreldra til að merkja föt barnanna með nafni og símanúmeri
– aðstoða skólana við að huga að aðgengilegri óskilamunaaðstöðu
– virkja börn og foreldra til að leita að týndum fötum og skynja mikilvægi þess
– veita foreldrafélögum, starfsfólki og nemendum í grunnskólum fræðslu og aðstoð við verkefni

Í heildina er ávinningur óskilamunaverkefnisins minnkandi kolefnisspor hvers heimilis, því saman munum við geta:
– komið í veg fyrir myndun óþarfa textílúrgangs í grunnskólum
– lengt líftíma fata barnanna og nýtt þau betur
– stuðlað að breyttri neytendahegðun þar sem leit að týndri flík kemur á undan kaupum á nýrri flík í staðinn

Ert þú foreldri eða kennari sem hefur áhuga á málefninu? Þú getur orðið til þess að verkefnið fari af stað í skólanum þínum!

Hér má hafa samband við Virpi og óska eftir fyrsta fundi (að kostnaðarlausu á höfuðborgarsvæðinu).

Gallaefni

MERKJUM, LEITUM OG FINNUM

Undanfarin 4 ár hefur óskilamunaverkefni verið unnið á vegum foreldrafélagsins í skóla barna Virpi. Þar hefur verkefnastjórnin verið í höndum Virpi og hefur sjálfboðastarfið í tvígang fengið tilnefningu til Foreldraverðlauna á vegum Heimilis og skóla.Virpi hefur nú tekið saman efni til að geta boðið skólum og foreldrafélögum aðstoð við samskonar verkefni.

Í skólanum þar sem verkefnið hefur staðið síðastliðin ár hefur átt sér stað augljós vitundarvakning. Þar ríkir hreinlega stemmning í kringum óskilamunina: Starfsfólk og stjórnendur skólans finna mun frá því sem áður var, fleiri foreldrar eru í óða önn að merkja föt barnanna sinna og allir áhugasamir, jafnt börn sem foreldrar, geta leitað á mun auðveldari hátt að flíkum eftir flokkum. Þetta hefur leitt til verulega minnkaðs magns fata í óskilum þegar skólanum er lokað fyrir sumarfrí.

Tvisvar á vetri eru haldnir Merkjaleikar þar sem áhugasamir foreldrar koma saman eina kvöldstund með það að markmiði að koma öllum merktum flíkum í óskilum tilbaka til nemendanna. Hér má sjá innslag úr Landanum á RÚV frá því í febrúar 2019 um fyrstu Merkjaleikana.

Sérðu möguleika á álíka verkefni í þínum skóla? Komdu í hóp áhugasamra foreldra og starfsfólks í Facebook-hópnum Ó-ið úr óskilamunum!

 

Verkefnið hlaut undirbúningsstyrk frá Atvinnumálum kvenna vorið 2020 undir vinnuheitinu „Hvar er húfan mín?“. Verkefnið á einnig vel við á fleiri stöðum en grunnskólum, t.d. hjá íþróttafélögum,  og eru allir áhugasamir eindregið hvattir til að setja sig í samband við Virpi hér.

Umsagnir um óskilamunaverkefnið
tékkmerki beigeTékkmerki_tákn

Spurningar og svör

póstur_tákn_beigePóstur_tákn

Hafðu samband

Facebook_tákn_beigeFacebook_tákn

Facebook

tékkmerki beigeTékkmerki_tákn

Verðskrá

Deila síðunni: