SKIPULEGGJANDINN
Virpi Jokinen er Á réttri hillu. Hún er fyrsti vottaði skipuleggjandinn (e. Professional Organizer) hér á landi, svo vitað sé. Hún er finnsk, tveggja barna móðir, hefur búið á Íslandi í rúman aldarfjórðung og talar íslensku reiprennandi. Hún er menntuð í myndlist og leiðsögn, lauk skipuleggjandanámskeiði í Helsinki haustið 2018 og er með diplómu á meistarastigi í jákvæðri sálfræði frá Endurmenntun Háskóla Íslands. Virpi hefur 15 ára reynslu af verkefnastjórnun, þar af ellefu ár í starfi skipulagsstjóra Íslensku óperunnar, þar sem hún vann m.a. við framleiðslu á óperusýningum.
Um Virpi hefur verið sagt að hún búi yfir miklum skipulagshæfileikum, yfirvegun, hugarró, lausnamiðaðri hugsun og framkvæmdagleði. Hún er virkur hlustandi, skarpur greinandi og hefur jákvætt, drífandi og hvetjandi viðmót. Allir þessir kostir koma að góðum notum þegar kemur að skipulagsaðstoð.
Hægt er að fá Virpi til að koma og halda námskeið eða flytja erindi bæði á staðnum og á netinu um allt það sem snýr að almennu skipulagi á heimilum og vinnustöðum og á erindi við marga mismunandi hópa. Virpi aðstoðar einnig foreldrafélög og skóla við að „taka Ó-ið úr óskilamunum“.